Páll Pálsson, fasteignasali, segir að íslenski fasteignamarkaðurinn verði fastur í endalausum vítahring næstu árin ef ekki verði komið til móts við eftirspurn á íbúðum. Hann segir húsnæðisskort vera meginorsök núverandi ástands og hefur áhyggjur af yfirvofandi fasteignaskorti.

„Í mörg ár voru fyrstu kaupendur í kringum 25% af markaðnum og mig grunar að sú tala hafi lækkað niður í 5-10%, þannig sá hópur er nánast farinn. Hópurinn sem væri hins vegar að kaupa vill frekar bíða og eina fólkið sem er í raun að kaupa er fólk sem annaðhvort á fyrir því eða neyðist til að gera það.“

Hann segir að sala nýrra íbúða hafi verið 22,8% minni í ár en á sama tíma og í fyrra. Samkvæmt sölutölum frá fyrsta ársfjórðungi seldust 1.777 eignir í fjölbýli eða sérbýli en á síðasta ári seldust 2.300 eignir.

„Íslendingum hefur fjölgað um fjögur til fimm þúsund þar sem af er af árinu. Stór hluti af þessu er innflutt fólk en ég veit ekki hvar það fólk gistir. Fyrir utan það eru þessir 1500 til 2000 nýir kaupendur sem koma yfirleitt inn á markað á hverju ári ekki að kaupa. Þannig þegar vextir og verðbólga fara að lækka árin 2025-2027 þá er ég rosalega hræddur um það að allur þessi stóri hópur bælist inn á markað og þá verði aftur íbúðaskortur,“ segir Páll.

„Það eru bara útvaldir sem eru að kaupa og hafa efni á þessum húsum."

Á sama tíma og salan er að minnka þá segir Páll að það hafi orðið 2,3% hækkun á fasteignaverði og hafa sérbýli einkum hækkað töluvert, eða um 4,8%.

„Ég hélt að sá markaður myndi falla fyrst, en það sem þetta segir mér er að það eru bara útvaldir sem eru að kaupa og hafa efni á þessum húsum. Einbýlishús hafa hækkað um næstum 5% frá áramótum og stór hluti af þeirri hækkun hefur orðið á síðustu tveimur mánuðum.“

Páll segir að núverandi framboð á íbúðum dugi þar sem salan er enn lítil, en þegar kaupendur fara aftur inn á markað eftir nokkur ár þá verði að vera hægt að bregðast fljótt við. Hann bætir við að það þurfi líka að hefja undirbúningsvinnu núna til að mæta þeirri þörf sem mun myndast eftir 2025.

„Það eru allir sammála um rótina á þessu, hvort sem það eru Samtök iðnaðarins eða Seðlabankastjóri. Það vita allir að þetta er vegna þess að skortur á húsnæði. Þetta er sama tuggan og við vorum að tala um fyrir þremur eða fimm árum síðan. Það tala allir um sama vandamálið nema stjórnmálamenn og ef þeir gera það þá er það rétt fyrir kosningar.“