Greiningardeild Arion banka spáir því að fjöldi ferðamanna fari áfram vaxandi á næstu árum. Árið 2012 var besta ferðamannaár Íslands frá upphafi. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu sóttu um 647 þúsund erlendir gestir landið heim um Leifsstöð, en áætlað er að sú talning nái að jafnaði til um 96% erlendra gesta.

Spá greiningardeildarinnar gerir ráð fyrir að um 727 þúsund ferðamenn sæki landið heim um Leifsstöð í ár, en þeim fjölgi í 789 þúsund á árinu 2014 og 855 þúsund á árinu 2015. Gangi spáin eftir nemur fjölgunin í ár um 12,4%, en 8,5% á árinu 2014 og 8,4% á árinu 2015 – það merkir að ferðamenn verða um þriðjungi fleiri á árinu 2015 en á árinu 2012.

Svo virðist sem skekkja í spánni sé helst upp á við, en greiningardeildin tekur fram að hætta sé á því að spáin vanmeti áhrif sprengingarinnar í fjölgun ferðamanna sem nú er að verða utan annatíma, t.d. á vetrarmánuðum. Fjölgunin gæti orðið enn meiri ef vetrarmánuðirnir verða áfram sterkir.