Gene Munster, tæknigreinandi hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu Piper Jaffrey, er mjög bjartsýnn á horfur Apple og nýjan snjallsíma fyrirtækisins. Hann spáir því að Apple muni selja 10 milljónir nýrra iPhone 5-síma á fyrstu þremur vikunum eftir að hann kemur á markað og að gengi hlutabréfa fyrirtækins rjúki upp um næstum því 40% á stuttum tíma, úr tæpum 668 dölum á hlut í 910 dali.

Margir tækninerðir og aðrir sem fylgjast grannt með ganginum hjá Apple telja yfirgnæfandi líkur á því að nýr iPhone-sími verði kynntur til sögunnar á morgun.

Netmiðillinn Daily Finance segir Munster hafa vænst mikils af Apple í gegnum tíðina og iðulega skrifað á jákvæðan hátt um nær allt úr smiðju fyrirtækisins. Þar á meðal er Apple-sjónvarpið sem hefur verið væntanlegt um skeið en lítið bólar á.