Greiningardeild Glitnis spáir því að Úrvalsvísitalan verði 7.200 stig við lok árs 2008. Það er 14% hækkun á árinu öllu. Þetta kemur fram í nýrri afkomuspá greiningardeildarinnar, sem kynnt var í morgun á fundi Félags um fjárfestatengsl.

Ef litið er til stöðunnar miðað við lok markaðar í gær þýðir þetta að spáð er að markaðurinn eigi inni 30% hækkun.

Miðað við dagslok í gær hafði Úrvalsvísitalan lækkað um 13 % á árinu.

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, sagði á fundinum að birti tæki yfir markaðinum þegar uppgjör bankanna verða hrein af afskriftum. Hann taldi að það myndi gerast á um miðju ári. Jafnframt taldi Ingólfur að það tæki tíma fyrir fjárfesta að komast aftur í gang eftir lækkanirnar.

Greiningardeildin mælir með því að fjárfestar minnki við hlut sinn í einu félagi; Icelandic Group og undirvogi það.

Þá mælir hún með því að fjárfestar haldi bréfum í og markaðsvogi 365, Alfesca, Icelandair Group, Marel Food Systems og Össur.

Greiningardeildin mælir með því að fjárfestar auki við sig í Atorku Group, Eik banka, Eimskip, Exista, Föroya banka, FL Group, Kaupþingi, Landsbankanum, Spron  og Straumi. Greiningardeildin reiknar með því að þessi bréf hækki um 10-20% á árinu öllu.

Greiningardeildin sér kauptækifæri í Bakkavör og Teymi og gerir ráð fyrir yfir 20% hækkun þeirra á árinu.

Ingólfur sagði að gengi rekstrarfélaganna í Kauphöllinni hafi liðið fyrir söluþrýsting á markaðnum og veðköll.