Helstu kaupendur í dag á skuldabréfamarkaði eru tryggingafélög, sveitarfélög og fleiri fagfjárfestar aðrir en lífeyrissjóðir. Verðbréfasjóðir hafa einnig verið á kauphliðinni og þá eru spákaupmenn vaknaðir aftur til lífsins eftir harða útreið í september. Þetta segir í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa en miklar dagslækkanir urðu á innlendum skuldabréfamarkaði þann 22. september sl.

Í markaðsfréttunum segir að ákveðin óvissa ríki hvað varðar þróun skuldabréfaverðs. „Krafa ríkistryggðra bréfa er komin niður fyrir þau mörk sem lífeyrissjóðirnir telja sér fært að fara niður í vegna neikvæðra áhrifa á útreikning framtíðarstöðu þeirra. Þeir eru líka nokkuð vel settir eftir kaupin á „Avensbréfunum“,“ segir í markaðsfréttum.

„Á stutta endanum eru erlendir fjárfestar (sem sitja fastir) allsráðandi. Það er því töluverð eftirspurn í gangi sem hefur í fátt að leita sem stendur þar sem gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir flæði úr krónunni.

Á framboðshliðinni eru það Íbúðalánasjóður og ríkissjóður sem sjá markaðinum fyrir bréfum. Verðtryggt framboð skuldabréfa er frekar takmarkað þar sem lítið er um útlán hjá Íbúðalánasjóði en viðvarandi halli ríkissjóðs sér þó um að töluvert framboð verður af óverðtryggðum bréfum næstu misserin.“