Spákaupmenn á skuldabréfamarkaði hafa haft mikil áhrif til hækkunar á verði skuldabréfa undanfarin misseri. Í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa segir að há verðlagning ásamt skuldsettri fjármögnun skýri eflaust stærstan hluta af þeim öfgakenndu viðbrögðum sem áttu sér stað, en miklar verðsveifur hafa verið á skuldabréfamarkaði í kjölfar stýrivaxtalækkunar sl. miðvikudag.

„Verðtryggð bréf lækkuðu öll nema stystu bréfin sem hækkuðu lítillega.  Mest lækkuðu lengstu bréfin, um 8,14%.  Eins var með óverðtryggðu bréfin, hækkun á stysta flokknum, en lengsti flokkurinn lækkaði um 7,18%,“ segir í Markaðsfréttum.

Fyrirheit um afnám gjaldeyrishafta hafði mikil áhrif

Segir að lækkunin hafi ekki síst verið vegna orða forsvarsmanna Seðlabankans um frekara afnám gjaldeyrishafta. „Næsta skref í afnámi haftanna verður líklega að fjárfestar sem eiga löng bréf geti flutt fjármuni sína úr landi, samkvæmt því sem fram hefur komið hjá forsvarsmönnum Seðlabankans.  Gangi þetta eftir setur það þrýsting á krónuna sem gæti leitt til aukinnar verðbólgu. Rökrétt er því að  krafa á löngum óverðtryggðum bréfum hækki fremur en krafa á verðtryggðum.“

„Markaðurinn hefur þó heldur verið að jafna sig og er verðlagning nú mun eðlilegri en fyrir þessa leiðréttingu.  Lengstu flokkar óverðtryggðra bréfa hafa þó haldið áfram að lækka í verði.“