Heimsmarkaðsverð á olíu fór í fyrsta skipti yfir 135 Bandaríkjadali á fatið í gær. Hækkunin kom í kjölfarið á því að stjórnvöld í Bandaríkjunum tilkynntu um versnandi birgðastöðu bæði hráolíu og bensíns. Væntingar voru um að tilkynnt yrði um lítillega aukningu og mögnuðust vonbrigðin upp við þá staðreynd að senn gengur í garð orlofstími í Bandaríkjunum en þá eykst einatt eftirspurn eftir bensíni. Framvirkir samningar með afhendingu á olíu hafa einnig hækkað mikið og benda til þess að olíuverð sé ekki á niðurleið.

Í kjölfar þess að spámannlega vaxnir menn á borð við Arjun Murti, sérfræðings hjá Goldman Sachs, lýstu því yfir að hugsanlega færi heimsmarkaðsverð á olíu í 150 til 200 dali á næstu 6 til 24 mánuðum hefur verð á framvirkum samningum til lengri tíma hækkað hraðar en á þeim sem eru til skemmri tíma. Verð á olíu sem afhent verður í desembermánuði árið 2016 fór í 142,12 dali á miðvikudag og hafði það hækkað um 20 dali á fjórum dögum. Fátt virðist því benda til annars en að hið háa olíuverð verði viðvarandi.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .