Dómari á Spáni hefur boðað Cristinu, prinsessu Spánar, til að bera vitni í máli sem snertir hugsanlegt peningaþvætti og fjársvik eiginmanns hennar. Cristina er yngsta dóttir Juan Carlos, konungs Spánar, og Soffíu drottningar. Eiginmaður hennar er Inaki Urdangarin, hertogi af Palma de Mallorca og fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta.

Urdangarin er gefið að sök að hafa fært milljónir evra úr opinberum sjóðum yfir í góðgerðasjóð sem hann stýrði. Breska útvarpið ( BBC ) segir að hann neiti sök og hafi ekki verið ákærður. Engu að síður hafa eignir hans verið kyrrsettar í tengslum við rannsókn málsins, þar á meðal glæsihýsi í útjaðri Barcelona sem hann á með eiginkonu sinni.

BBC segir þetta talið í fyrsta skiptið sem svo náin skyldmenni konungs hafi þurft að mæta í dómsal vegna fjársvikamáls.