Landsframleiðsla dróst saman um 0,3% á Spáni á fyrsta fjórðungi ársins. Þetta er jafn mikill samdráttur og á síðustu þremur mánuðum síðasta árs. Skollin er á kreppa í landinu á nýjan leik, samkvæmt gögnum spænsku hagstofunnar sem birt voru í dag.

Helsta ástæðan fyrir samdrættinum er lítil eftirspurn innanlands í skugga um tæplega 25% atvinnuleysis.

Ríkisstjórn Mariano Rajoys, sem tók við rétt fyrir áramót hefur boðað harkalegar aðgerðir til að snúa hagkerfinu til betri vegar og draga úr hallarekstri. Eins og til að bæta gráu ofan á svart lækkaði matsfyrirtækið Standard & Poor's lánshæfiseinkunnir umsvifamestu banka landsins, þar á meðal Santander og BBVA, Banco Sabadell, Ibercaja, Kutxabank, Banca Civica og Bankinter, útibú Barclays á Spáni.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildamanni í efnahagsráðuneyti landsins, að ríkisstjórnin vinni nú að því að fá banka og lánastofnanir til að skilja stóran hluta fasteignalánasafna frá öðrum rekstri. Hugmyndirnar fela m.a. í sér að þeir stofnir nýtt félag og færi lánasöfnin þangað eins og gert var á Írlandi eftir að fasteignamarkaðurinn hrundi þar.

Samkvæmt gögnum spænska seðlabankans sitja bankar þar í landi á fasteignalánum upp á 184 milljarða evra sem eru í vanskilum og er það 60% allra fasteignalána þeirra.