Það hefur verið mikil lægð yfir sumarhúsamarkaðnum undanfarna mánuði. Að sögn fasteignasala sem Viðskiptablaðið ræddi við er fólk nú farið í meiri mæli að fjárfesta í húsi á Spáni og í ferðavögnum fremur en sumarhúsi í íslensku sveitinni.

„Við höfum klárlega fundið fyrir minni sölu,“ segir Jón Rafn Valdimarsson, fasteignasali hjá Mikluborg. „Venjulega hefst sölutímabilið upp úr páskum. En við fundum mjög fljótt fyrir því að þetta sumar yrði ekkert í líkingu við sumarið fyrir tveimur árum.“ Hann bætir við að ekki sé hægt að miða við síðasta sumar sökum þess að veðurfarið hafi verið einstaklega slæmt.

„Við höfum séð að það er að verða mun algengara að fólk  fjárfesti í húsi á Spáni eða ferðavögnum fremur en í sumarhúsi í íslensku sveitinni,“ segir Jón.

Heimir Hafsteinn Eðvarðsson, fasteignasali hjá Fasteignalandi, segir það alltaf að verða algengara að fólk dvelji í sumarhúsum sínum líka yfir vetrarmánuðina. „Það er líka mjög algengt að fólk kaupi sér fínt sumarhús úti á landi og dvelji þar yfir sumarið en eigi síðan annað hús í hlýrri löndum til dæmis á Spáni og dvelji þar yfir vetrartímann.“

Framboðið meira en eftirspurnin

Að sögn Jóns er framboðið á sumarhúsum meira en eftirspurnin nú um þessar mundir. „Framboð á sumarhúsum hefur aldrei verið meira en nú en eftirspurnin hefur aftur á móti ekki fylgt þeirri þróun. Núna eru mjög góðir bitar inni á markaðnum á mjög lágu verði en aftur á móti á sumarhúsamarkaðurinn töluvert inni hvað varðar lækkanir.“ Spurður hvort verð á sumarhúsum hafi lækkað segir Jón að þau séu mörg hver enn á sama verði en ný hús sem koma inn á markaðinn séu farin að lækka.

Heimir segir að aðstæðurnar í efnahagslífinu séu helstu ástæður þess að færri sumarhús hafi selst. „Umræðan í þjóðfélaginu hefur klárlega haft áhrif, til dæmis sú staðreynd að ferðamönnum sem koma hingað til lands er að fækka. Þessi neikvæða umræða hefur klárlega áhrif á kaupvilja fólks og ekki aðeins á sumarhúsum heldur líka bara fasteignum yfirhöfuð.“

Markaðurinn taki við sér í ágúst

Jón og Heimir sammælast um það að sumarhúsamarkaðurinn eigi eftir að taka við sér í ágúst og september. „Sumarhúsamarkaðurinn er oft þannig að ágúst og september eru sterkustu mánuðirnir í stað maí og júní. Þannig að ég hef það á tilfinningunni að það verði töluvert meiri sala nú þegar líður á sumarið,“ segir Jón.

Heimir kveðst vera bjartsýnn og segir að hann búist við því að salan fari að verða meiri strax eftir verslunarmannahelgi. „Þetta sumarið þá hefur verið hreyfing á sumarbústöðum en bara ekki eins mikil og hún hefur verið. En ég er mjög bjartsýnn á það að strax eftir verslunarmannahelgina þá förum við að sjá meiri hreyfingu á sumarhúsum. Ég er viss um það.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .