Spænska ríkið mun fljótlega gefa út ný skuldabréf til að fjármagna þarlenda banka og sveitarfélög sem eiga í alvarlegum fjárhagslegum vanda þrátt fyrir að ávöxtunarkrafan á spænskum bréfum nálgist nú óðum 7%, sem er almennt talið ósjálfbært.

Í frétt CNBC segir að spænska bankakerfið sé rót efnahagsvandræða spánar og að hagfræðingar séu á einu máli um að Spánn eigi ekki afturkvæmt úr kreppunni, sem nú grípur landið, áður en sá vandi er leystur. Frekari skuldasöfnun ríkisins sé hins vegar ekki endilega til þess fallin að auka tiltrú fjárfesta á landinu.

Í frétt Reuters segir að spænska ríkið muni setja um 19 milljarða evra inn í spænska bankann Bankia fyrir næstkomandi föstudag og að fjárins verði aflað með skuldabréfaútgáfu ríkisins eða sérstaks bankabjörgunarsjóðs.