Spænskir bankar þurfa á um 60 milljarða evra aðstoð til viðbótar þá 20 milljarða sem þeir hafa þegar fengið og hefur BBC það eftir heimildarmönnum sínum innan spænska stjórnkerfisins að stutt sé í að spænska ríkið muni biðja Evrópusambandið um fjárhagsaðstoð.

Óháð álagspróf hafa verið framkvæmd á bankakerfinu og verða niðurstöðurnar kynntar þann 28. september næstkomandi. Bankarnir hafa hins vegar nú þegar fengið að sjá niðurstöðurnar og hafa þær lekið út. Í frétt BBC segir að í Brussel sé almennt litið svo á að spurningin sé hvenær en ekki hvort Spánn óski eftir aðstoð. Betra sé fyrir alla að beiðnin komi fyrr en seinna.