Háir fasteignalánavextir eru ekki einskorðaðir við Ísland, heldur á það líka við markaði um alla Evrópu. Það sem gerir málið margfalt verra á Íslandi er óðaverðbólga og verðtrygging lána. Á Mallorca á Spáni eru vextir ekki ósvipaðir því sem hér þekkist, fyrir utan verðtryggingu.

Íslenskir lántakendur verða ekki einungis að taka á sig verðfall fasteigna vegna minnkandi viðskipta á tímum hárra vaxta eins og á Spáni, heldur borga þeir verðbólguþáttinn í botn þar til viðbótar.

Algengustu fasteignalán á Mallorca bera 5,85% vexti og samkvæmt úttekt Mallorca Property News er ekki von til að vextir lækki mikið alveg á næstunni.

Á Mallorca, eins og víðar um Evrópu, er það verðbólguótti sem heldur aftur af fjármálastofnunum að lækka vexti. Þó þykjast menn greina einhverja glætu í myrkrinu og telja sumir að um þessar mundir sé fólk að upplifa topp vaxtakúrfunnar, en spurningin sé frekar hvað þessi toppur vari lengi. Það hefur líka haft áhrif á fasteignaviðskipti innan Evrópu að breska pundið hefur veikst gagnvart evru og ekki er búist við viðsnúningi þar fyrr en undir lok þessa árs eða í byrjun ársins 2009.

Þetta skiptir miklu máli þar sem Bretar hafa verið meðal bestu viðskiptavina spænskra fasteignasala í fjölda ára. Veiking pundsins gagnvart evru þýðir að þeir draga úr sínum viðskiptum á evrusvæðum.

Mallorca Property News bendir á að þótt verðbólga sé aldrei góð til lengri tíma litið og þýði að raunvirði fasteigna lækkar, þá geti líka verið fólgin í því kauptækifæri. Kannski sé einmitt rétti tíminn núna til að kaupa, á meðan raunverð er í lágmarki og áður en siglt verður inn í betri tíma að nýju og verð tekur að hækka á ný.