Stjórnvöld á Spáni ætla að einkavæða ríkislottóið þar í landi með skráningu þess á markað. Alls verður seldur um 30% hlutur með útgáfu hlutabréfa. Virði félagsins er metið á allt að 25 milljarða evra. Financial Times greina frá þessu í dag.

Veðmálafyrirtækið heitir Loterías y Apuestas del Estado og heldur árlega lottó á borð við El Gordo og jólalottó. Sala hluta félagsins er partur af aðgerðum stjórnvalda til þess að draga úr opinberum skuldum. Einnig stendur til að selja 49% hlut í ríkisfyrirtæki sem heldur um flugmálastjórn í Madríd og Barcelona.

Ríkislottóið á Spáni á sér 199 ára sögu. Búist er við að með hlutafjárútboði muni ríkið afla sér á bilinu 6,5 til 7,5 milljarða evra. Sú verðlagning gerir fyrirtækið að verðmætasta veðmálafyrirtæki Evrópu.