Helstu hlutabréfavísitölur sigu á fjármálamörkuðum á meginlandi Evrópu í dag vegna vandræðagangsins í grískum stjórnmálum og lækkun á lánshæfiseinkunum spænskra banka.

Aðalvísitalan á hlutabréfamarkaði á Spáni féll um 2% við upphaf viðskiptadagsins í dag en jafnaði sig fljótt og er nú komin í 0,35% hækkun. Svipaða sögu er að segja af öðrum hlutabréfamörkuðum,

Matsfyrirtækið Moody's lækkaði lánshæfismat 16 banka í gær, þar á meðal Santander, sem er með útibú í fjöld landa, svo sem í Bretlandi. Þá taldi Moody's líkur á að stjórnvöld á Spáni geti ekki staðið við erlendar skuldbindingar sínar og útlit fyrir að það feti í fótspor Grikklands að gjaldþrotabarminum.

Gengi hlutabréfa bankanna féll í gær og olli það titringi á fjármálamörkuðum. Gengi bréfanna sneri upp á við í dag. Þar af hefur gengi bréfa Santander hækkað um 2% og Bankia um 17%. Gengi hlutabréfa Bankia féll um 14% í gær.