Ríkisstjórn Spánar ætlar að leita eftir neyðarláni frá evrópska seðlabankanum fari ávöxtunarkrafa á skuldir hins opinbera úr böndunum, að sögn Mariano Rajoy, forsætisráðherra landsins.

Stjórnvöld hafa fram til þessa verið treg til að fara niður á hnén og leita eftir alþjóðlegri hjálp svo landið geti staðið við skuldbindingar sínar. Ríkisstjórnin óskaði í júní eftir allt að 100 milljarða evra láni til að koma bönkum landsins á réttan kjöl eftir að fasteignabólan sprakk með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á eignasöfn bankanna.

Miðborg Madrid, höfuðborg Spánar, hefur logað í mótmælum í dag vegna fyrirhugaðra aðhaldsaðgerða ríkisstjórnar Spánar í fjárlögum næsta árs. Reuters-fréttastofan greinir m.a. frá því í dag, að þúsundir mótmælenda hafi komið saman við þinghúsið. Fjárlögin kveða m.a. upp á 60 milljarða evra niðurskurð á næstu tveimum árum.