Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, segir stjórnvöld ekki ná markmiðum sínum um niðurskurð í ríkisútgjöldum á árinu. Stefnt var að því að ná halla á fjárlögum niður í 4,4% af landsframleiðslu á þessu ári. Nú er hins vegar útlit fyrir að hann verði talsvert meiri, jafnvel um 5,8% af landsframleiðslu. Til samanburðar var hallinn í fyrra 8,5% af landsframleiðslu.

 Mariano Rajoy
Mariano Rajoy

Breska útvarpið, BBC, hefur eftir forsætisráðherranum að þrátt fyrir að markmið í ríkisfjármálum náist ekki á árinu þá þýði það ekki að niðurskurðarhnífurinn muni rista grunnt. Þvert á móti verði gripið til mikils niðurskurðar á þessu ári til að koma ríkisfjármálunum á réttan kjöl.

Ríkisstjórn Rajoys tók við völdum á Spáni eftir kosningar rétt fyrir síðustu jól. Forsætisráðherrann hefur verið gagnrýndur harkalega heima fyrir sökum þess að eitt af kosningaloforðum hans var að hækka ekki skatta á landsmenn. Sökum hallareksturs varð hann hins vegar að draga í land skömmu eftir að hann tók við embættinu og ganga á bak orða sinna.

Í nýrri efnahagsáætlun Rajoys er gert ráð fyrir að niðurskurður ríkisútgjalda og skattahækkanir skili rúmum 15 milljörðum evra í ríkiskassann.

BBC hefur eftir fjármálasérfræðingum að Rajoy eigi erfitt verk fyrir höndum í skugga 0,3% samdráttar á síðasta ársfjórðungi. Þá er hvergi jafn mikið atvinnuleysi innan Evrópusambandsins en á Spáni mælir einn af hverjum fjórum göturnar.