Ríkisstjórn Spánar óskaði í dag eftir 100 milljarða evra láni úr björgunarsjóði evruríkjanna til að endurfjármagna stærstu banka landsins. Legið hefur í loftinu um alllangt skeið að þetta gæti orðið raunin þótt spænskir ráðamenn hafi ævinlega vísað öllu slíku aftur til föðurhúsanna. Ætlunin samkvæmt ráðamönnum var leita hófanna eftir lánsé á alþjóðlegum mörkuðum. Þar hafa Spánverjar hins vegar komið að lokuðum dyrum..

Í umfjöllun netútgáfu bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal af málinu segir að stjórnvöld hafi fyrir löngu átt að leita eftir fjárhagsaðstoð enda hafi það átt að vera mönnum ljóst fyrir löngu að efnahagsreikningar helstu banka landsins væru ekki jafn burðugir og þeir litu út fyrir að vera. Helsta ástæðan fyrir því að stjórnvöld leituðu á náði evrusjóðsins eru þau að bankar á Spáni voru líkt og víðar afar viljugir til að veita fasteignalán með veðum í fasteignunum sjálfum. Þegar fasteignamarkaðurinn hrundi rýrnaði gæði veðanna og virði lánasafna bankanna gufaði upp.

Greinarhöfundur Wall Street Journal er í raun einkar gagnrýnin á seinagang spænskra stjórnvalda og segir ráðamenn hafa átt að gera eitthvað í málunum árið 2008 í stað þess að loka augunum fyrir vandanum. Hefði verið brugðist við í tíma hefðu Spánverjar geta komist betur undan áhrifum fjármálakreppunnar en raunin varð.

Stjórnvöld hafa hamrað á því í vikunni að allsendis óvíst væri hversu háa upphæð bankarnir þyrftu á að halda og vísuðu til þess að endurskoðun á efnahagsreikningum bankanna væri ekki lokið. Upphæðin sem Luis de Guindos, fjármálaráðherra Spánar, sagði duga hljóp á bilinu 40 til 90 milljörðum evra. Þegar á hólminn var komið reyndist hún yfir efri mörkum.