Luis de Guindos, efnahagsmálaráðherra Spánar, óskaði bréfleiðis í dag formlega eftir láni frá evruríkjunum til að endurfjármagna bankakerfið. Jean-Claude Junker, forsætisráðherra Lúxemborgar sem jafnframt er í forsvari fyrir fjármálaráðherra evruríkjanna, var móttakandi bréfsins.

Í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial Times í dag segir að í bréfinu komu fram ýmsar upplýsingar um skilmála lántökunnar. Hins vegar kemur ekkert fram um lánsupphæðina. Spánverjar óskuðu eftir því fyrir nokkrum vikum að fá 100 milljarða evra lán hjá evruríkjunum til að bæta eiginfjárstöðu banka þar í landi. Þeir komu illa undan kreppunni. Bankarnir lánuðu mikið til fasteignakaupa og fasteignatengdra verkefna með veði í fasteignunum. Veðin hafa hrunið í verði og eignasafnið sömuleiðis.

Í Financial Times segir að eftirlitsnefndir frá evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum auk spænskra eftirlitsaðila muni fylgja láninu úr höfn. Eins segir þar að svo kunni að fara að hin evruríkuríkin krefjist uppstokkunar á spænskum bankageira, s.s. þsví að einn eða fleiri svokallaðir „vondir bankar“ verði stofnaðir. Þeir bankar sem standi illa verði látnir fara á hliðina og muni veð þeirra í fasteignum og öðrum „eitruðum“ eignum renna inn í þá. Fyrirmyndirnar má m.a. finna á Írlandi og í Þýskalandi, að sögn Financial Times.