Heimsmarkaðsverð á áli er nú um 1.480 dollarar tonnið eftir að hafa náð hæst eftir áramótin í 1.575 dollara þann 8. janúar sl. Er staðan á markaðnum algjörlega á skjön við spár “sérfræðinga” um 4.000 dollara sem gerðar voru í júní í fyrra.

Reynslan sýnir að harla lítið hefur verið að marka spár sérfræðinga á hrávörumarkaði frekar en í bankageiranum sem margir sögðu vera í fínum málum rétt fyrir hrunið í haust. Þann 25. júní 2008 var því spáð á fréttaveitu Dow Jones að heimsmarkaðsverð á áli færi í 3.600 til 4.000 dollara tonnið fyrri árslok 2008. Álverðið fór hæst í tæpa 3.300 dollara tonnið í júlí 2008, en hrapaði svo í 1.446 dollarar 31. desember á hrávörumarkaði LME í London.

Sömu spár sem hafðar voru eftir “markaðssérfræðingum” hjá UC Rusal, MB Consulting og Barclays Capital, sögðu að álverð myndi halda áfram að hækka á árinu 2009 og færi í 4.250 til 4.500 dollara tonnið fyrir árslok 2009. Í dag, rúmu hálfu ári seinna eru engar vísbendingar um að álverð hækki mikið á næstunni eftir gríðarlegt verðfall á undanförnum mánuðum.