Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum nema opinber innkaup um 18% af þjóðarframleiðslu eða um 300 milljörðum króna ári. Þetta eru samanlögð innkaup ríkis og sveitarfélaga en séu innkaup sveitarfélaga tekin út standa um 150 milljarðar eftir. Samkvæmt tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar er stefnt að 10% hagræðingu í opinberum innkaupum og samkvæmt þessum tölum þýðir það um 15 milljarða sparnað á ári. Af þeim 111 sparnaðartillögum sem hópurinn skilaði af sér er þessi því sú veigamesta.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir tæplega 13 milljarða króna stuðningi við bændur í formi greiðslna vegna mjólkurframleiðslu, sauðfjárframleiðslu og fleira. Samkvæmt tillögum hagræðingarhópsins á að hætta greiðslum til Bændasamtakanna en þau eru á bilinu 400 til 500 milljónir. Jafnframt á að hætta verðtilfærslum og verðmiðlun á mjólk en framlög vegna þessa hafa numið um 400 milljónum á ári. Verði þetta að veruleika er búið að spara um milljarð króna í styrkjum til landbúnaðarins.

Í tillögunum er rík áhersla lögð á sameiningar stofnana og verkefna. Þannig kemur sögnin að sameina 34 sinnum fyrir í tillögunum 111. Þó að erfitt sé að fullyrða nokkuð um það þá er líklega mest undir í sameiningum í menntakerfinu annars vegar og heilbrigðiskerfinu hins vegar. Sem dæmi kostar rekstur framhaldsskólanna frá um 140 milljónum í tilfelli Menntaskólans á Húsavík upp í 1,8 milljarða í tilfelli Tækniskólans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .