Icelandair áætlar að nýju kjarasamningarnir við flugmenn og flugþjóna, sem ná fram í september 2025, hefðu lækkað kostnað fyrirtækisins um 3,5 milljarða króna á ársgrundvelli, miðað við rekstraráætlun ársins 2020. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu Icelandair fyrir komandi hlutafjárútboð.

Icelandair telur að nýir kjarasamningar við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefðu lækkað kostnað fyrirtækisins um 17 milljónir dollara, eða um 2,3 milljarða króna á ársgrundvelli. Um 9 milljóna dollara hagræðing, eða 1,2 milljarða króna, hefði nást í ár af kjarasamningum við Flugfreyjufélag Ísland (FFÍ) miðað við sambærilega útreikninga.

Flugfélagið náði samningum við FÍA um miðjan maí síðastliðinn en erfiðara gekk að ná samningum við Flugfreyjufélagið. Félagsmenn FFÍ höfnuðu kjarasamningi Icelandair í kosningu sem lauk þann 8. júlí en samþykktu að lokum nýjan kjarasamning þann 27. júlí eftir að Icelandair hafði sagst vera að íhuga að leita til annara stéttarfélaga . Auk þess samdi Icelandair við flugvirkja í lok maí.

Við nýjan kjarasamning FÍA fer árlegur fartími flugmanna úr 525 í 640 klukkustundir, en það er 21,9% aukning. Icelandair telur að fartími flugmanna sinna geti að hámarki farið upp í 725 tíma. Í fjárfestakynningunni segir að miðgildi fartíma flugmanna hjá samkeppnisaðilum sé um 599 klukkustundir.

Fartími flugþjóna hækkar úr 65 í 70 klukkustundir á mánuði fyrir starfsmenn í fullu starfi. Fartíminn verður hins vegar 75 klukkustundir á mánuði á fyrstu tveimur árum hjá nýjum flugþjónum. Árlegur fartími flugþjónanna hækkar um 15,4% við nýja samninginn úr 596 í 688 klukkustundir sem er þó undir miðgildi annarra flugfélaga sem er um 694 klukkutímar.