Alþingi hefur samþykkt ný lög um opinber innkaup, sem eiga að auka skilvirkni í innkaupum og styðja við stefnumörkun um aukin sameiginleg innkaup stofnana.

Ríkið ver árlega 88 milljörðum króna í kaup á vörum og þjónustu og tilraunaverkefni hafa gefið góða raun og væntingar um að með hagkvæmum innkaupum sé hægt að standa við áætlanir um að spara megi allt að 2-4 milljarða króna á ári.

Aukinn sparnaður og betri nýting skattfjár

Tóku í vor 55 ríkisstofnanir þátt í örútboðum innan rammasamninga á tölvum, tölvuskjám og pappír og segir fjármálaráðuneytið að lágmarksávinningur af þeim hafi verið yfir 100 milljónir króna. Jafnframt fylgi sameiginlegum útboðum oft betri vörur ofan á að þær séu ódýrari.

Með einföldun og heildstæðu regluverki þar sem lögð er áhersla á sameiginleg innkaup er vænst þess hægt verði að auka sparnað og fá betri nýtingu skattfjár.

Öll útboð auglýst á sama stað

Í lögunum felst meðal annars að umsýsluþóknun rammasamninga verði afnumin fyrir seljendur og að öll útboð verði auglýst á einum stað, á síðunni utbodsvefur.is.

Auka nýju lögin möguleika innlendra aðila til að standa sameiginlega að innkaupum með erlendum aðila, til að mynda vegna innkaupa á lyfjum og sérhæfðum búnaði.

Heilbrigðisvörur og lyf fyrir 16 milljarða

„Þetta getur haft í för með sér verulegt hagræði en alls kaupir ríkið heilbrigðisvörur og lyf fyrir um 16 milljarða króna á ári. Þá er tækifæri til að ná fram hagræðingu við innkaup á sviði upplýsingatækni, en árleg innkaup vegna upplýsingatækni nema um 6 milljörðum króna,“ segir í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins.

„Fjármála- og efnahagsráðuneytið lét nýlega gera úttekt á hugbúnaðarleyfakostnaði ríkisins, sem leiddi í ljós að ná megi fram allt að 140-190 milljón króna árlegum sparnaði með sameiginlegum innkaupum á hugbúnaðarleyfum.“