Fjársýsla ríkisins er á lokametrum þess að semja við Advania um hýsingu á bókhaldskerfi ríkisins sem nefnist Orra-kerfið. Advania (áður Skýrr) hefur séð um kerfið frá því að það var fyrst innleitt árið 2001. Það ár var útboð um rekstur og hýsingu kerfisins en samningarnir sem gerðir voru þá hafa verið endurnýjaðir nokkrum sinnum, þar til tekin var ákvörðun um að bjóða að nýju út hýsingu á Orrakerfinu.

Alls bárust átta tilboð, sex frá Advania, eitt frá Símanum og eitt frá Opnum kerfum. Nú er verið að fara yfir annað lægsta tilboð Advania en lægsta tilboðið var úrskurðað ógilt þar sem í því fólst notkun á verktaka utan Evrópska efnahagssvæðsins sem uppfyllir ekki lög um persónuvernd. Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslunni er þess vænst að hægt verði að ljúka formsatriðum samningsins í næstu viku en hann mun síðan taka gildi fyrsta október næstkomandi. Lægsta gilda tilboð var frá Advania og hljóðaði upp á 7.850.000 kr á mánuði án vsk. en kostnaðaráætlun var 16.000.000 á mánuði án vsk. Þannig hljóðar sparnaðurinn vegna útboðsins upp á 8.150.000 krónur á mánuði.

Kerfið mikið gagnrýnt

Innleiðing og rekstur Orra-kerfisins hefur verið gagnrýnt verulega á síðustu árum, þá sérstaklega þegar Kastljós hafði til umfjöllunar skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði um kerfið árið 2012. Þar kom fram að aðeins 70% svarenda í könnun á meðal forstöðumanna ríkisstofnanna töldu að virkni Orra væri í samræmi við þarfir sinnar stofnunar, um 45% að Orri væri aðgengilegur og helmingur að kerfið væri skilvirkt stjórntæki fyrir stofnanir. Að auki var upplýst um alvarlega öryggisgalla á kerfinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .