Árni Johnsen og Kjartan Þórsson stofnuðu sprotafyrirtækið Nordverse á síðasta ári eftir gott gengi á samnorrænu heilsuhakkaþoni sem haldið var í HR.

Eitt af því sem þeir félagar þurftu að sinna sem aðstoðarlæknar var að semja svokölluð niðurtröppunarskemu fyrir fólk sem þarf sterk verkjalyf. Árni segir þau mikilvæg til að takmarka áhættu þess að einstaklingar sem verða að fara á tiltekin lyf þrói með sér fíkn.

Upp undir klukkutími á dag
„Þegar fólk er búið í aðgerð og útskrifast af spítala þarf það oft að halda áfram að vera á verkjalyfjum í einhvern tíma. Þá erum við að tala um morfínskyld verkjalyf sem eru mjög ávanabindandi. Þetta eru lyfin sem eru að valda þessari ópíóðakrísu. Við vorum að útskrifa mikið af fólki á þessum lyfjum.“

Hvert skema tók þá um 10- 15 mínútur að útbúa, og þeir þurftu að útbúa nokkur á dag. „Við hugsuðum með okkur að þetta væri eitthvað sem væri hægt að staðla og búa til mjög einfalda lausn sem gæti gert þetta jafnvel á nokkrum sekúndum. Aðferðin sem við notuðum áður var að setjast niður með sjúkraskrárkerfið á Landspítalanum, eða hreinlega blað og blýant, og gera þetta handvirkt.“ Þetta fól meðal annars í sér að læknar þurftu að reikna allt út sjálfir í höndunum í hvert sinn.

Fjórðungur allra niðurtrappana
Þeir settust því niður og hönnuðu vefsíðu sem tekur inn þær breytur og forsendur sem þarf, og sér um alla útreikninga. Síðan reiknar út hvernig best er að trappa viðkomandi niður, og útbýr bréf, en inn í bréfið hafa þeir sett leiðbeiningar um algengar og alvarlegar aukaverkanir.

Síðan vefsíðan fór í loftið í mars í fyrra hafa verið búin til á henni 2.700 skemu, sem gerir hátt í fimm á dag. „Síðan er eingöngu á íslensku svo þetta eru væntanlega allt Íslendingar sem eru að gera þetta. Okkur reiknast gróflega til að þetta sé um fjórðungur allra niðurtrappana á þessum lyfjum sem skipulagðar eru hér á landi.“

Næstu skref eru svo að bæta fleiri lyfjum við kerfið, og þýða það og staðfæra fyrir fleiri lönd. Íslenska útgáfa síðunnar hefur verið fjármögnuð af fyrrnefndum styrkjum og notkun hennar endurgjaldslaus, en erlendu útgáfurnar hyggjast þeir selja í áskrift.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .