Matvælaframleiðendur reyna almennt fram í lengstu lög að forðast verðhækkanir á hverri seldri einingu og grípa þess í stað oft til annarra ráða. Vinsælt er að minnka innihald hvers pakka en halda verðinu óbreyttu á tímum efnahagslegra erfiðleika. Bjórframleiðandinn Heineken, sem framleiðir breska bitter bjórinn John Smith’s Extra Smooth hefur ákveðið að fara svipaða leið.

Áfengisinnihaldið verður lækkað úr 3,8% í 3,6% en við það lækkar áfengisgjaldið sem greitt er af hverjum seldum bjór. Heineken heldur því fram að þetta muni ekki hafa nein áhrif á bragðgæði, en verkamannaklúbbur í Grimethorp hefur hótað því að hætta að selja bjórinn nema verðið lækki til samræmis við veikinguna.