Sjálfseignarstofnunin Sparisjóður Norðfjarðar ses. hefur verið formlega afskráð. Starfsemi sparisjóðsins hefur verið flutt yfir í hlutafélag, Sparisjóð Austurlands hf. Við­skiptablaðið greindi frá því fyrr á þessu ári að tilgangur þessarar breytingar væri að auka sveigjanleika varðandi arðgreiðslur og sameiningu.

Vilhjálmur G. Pálsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Austurlands, segir í samtali við Viðskiptablaðið að sparisjóð­urinn hafi verið rekinn með hagnaði undanfarin þrjú ár og að eigendur sjóðsins hafi viljað greiða út uppsafnað eigið fé sem arð. Í sjálfseignarstofnunum sé hins vegar aðeins hægt að greiða út arð á því ári sem hagnaðurinn fellur til.

Auk þess segir Vilhjálmur að hlutafélagaformið sé þekktara í viðskiptalífinu. Hann segir að breytingin hafi jákvæð frekar en neikvæð áhrif á samfélagslega stöðu sjóðsins, en sparisjóðum ber að greiða 5% af hagnaði sínum í samfélagsverkefni samkvæmt lögum.