Óverðtryggð innlán heimila hafa lækkað úr tæpum 684,8 milljörðum króna í júlí 2009 á núvirði í 379,4 milljarða í mars á þessu ári. Munurinn nemur 305 milljörðum króna. Morgunblaðið segir frá því í dag að samkvæmt heimildum blaðsins megi ætla að þar af hafi 109,4 milljarðar brunnið á verðbólgubáli en afgangurinn, um 196 milljarðar, farið í útektir og aðrar fjárfestingar.

Þingmaðurinn Pétur H. Blöndal, segir þetta mjög slæma þróun.

„Stærstur hluti innlána eru óverðtryggður, 60-70%, og sá hluti rýrnar af sjálfu sér án þess að eigendur sparifjárins taki það út. Spariféð brennur því hratt upp og í ofanálag eru sparifjáreigendur skattlagðir. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður í þremur þrepum á kjörtímabilinu, úr 10% í 15%, svo í 18% og loks í 20%. Bankarnir hafa veitt ýmsar ívilnanir til skuldara og má þar nefna 110%-leiðina fyrir skulduga húseigendur og endurgreiðslu vaxta. Bönkunum hefur hins vegar ekki dottið í hug – og þeir hafa ekki einu sinni ýjað að því – að hækka vexti á innlánum,“ segir hann.