Sparisjóðabankinn (áður Icebank) hefur fengið hálfs mánaðar frest til þess að leggja fram auknar tryggingar hjá Seðlabanka Íslands vegna veðlána sem bankinn fékk út á skuldabréf gömlu bankanna þriggja.

Eins og greint hefur verið frá námu þessi veðlán Sparisjóðabankans um 120 milljörðum og krafði Seðlabankinn hann um viðbótartryggingar upp á 60 milljarða króna.

Agnar Hansson forstjóri Sparisjóðabankans fagnar þessari niðurstöðu og segist hafa fulla trú á að menn vilji leysa þann vanda sem bankinn glími við.

Hann segir að miklu máli skipti að tekist hafi að fá erlenda lánardrottnara Sparisjóðabankans til þess að koma að málum og það hafi væntanlega ráðið úrslitum. Nú hafi menn tíma til þess að vinna úr málunum og segist Agnar vongóður um að lending finnist svo forða megi bankanum frá því að lenda í þroti.