„Erlendir kröfuhafar munu á allra næstu dögum bregðast við tilboði um hvernig Byr og Sparisjóðurinn í Keflavík (SpKef) verða endurskipulagðir. Ef þeir samþykkja tilboðið þá verða stofnfjáreigendur kallaðir til fundar og síðan endurskipulagning kláruð í kjölfarið. Það ætti að geta gerst tiltölulega fljótt,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Endurskipulagning sparisjóðakerfisins, sem tekið hefur meira en sex mánuðum lengur en áætlað var í fyrstu, er nú langt komin og standa vonir til þess að henni ljúki á næstu misserum.

Fá 40% af kröfum

Eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu miðar tilboðið, sem erlendir kröfuhafar Byrs og SpKef eru nú að taka afstöðu til, að því að stofnfé þeirra verði fært niður að því næst öllu leyti. Ríkið mun leggja sjóðunum til eigið fé, nálægt fimmtán milljörðum samtals, og eignast sjóðina að fullu. Erlendir kröfurhafar fá um 40% af kröfum sínum til baka verði tilboðinu tekið. Stofnfjáreigendur geta komið í veg fyrir það með því að neita að samþykkja tilboðið. Þá færu sjóðirnir að líkindum beint í gjaldþrotameðferð vegna bágrar stöðu þeirra.

___________________________________

Nánar er fjallað um endurskipulagningu sparisjóðanna í Viðskiptablaðinu.