Lánardrottnar Kistu, fjárfestingarfélags nokkurra sparisjóðs, fá rétt rúmar 1,2 milljónir króna upp í næstum 14 milljarða króna kröfur sínar. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum lauk í gær eða 28. október. Upp í almennar kröfur, sem hljóðuðu upp á næstum 13,9 milljarða króna, fengust rúmar 1,2 milljónir króna eða sem nemur 0,008845% upp í kröfur. Ekkert fékkst upp í eftirstæðar kröfur.

Kista var nátengt Kaupþingi og Bakkavararbræðrunum Ágústi og Lýð Guðmundssonum. Það var í eigu Sparisjóðsins í Keflavík, SPRON, Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Mýrarsýslu og var stofnað til að kaupa hlutabréf í Exista árið 2006. Hlutabréfakaupin voru fjármögnuð með lánum frá Kaupþingi, Glitni og Straumi. Í lok ársins átti félagið hlutabréf í Exista fyrir rúma 20 milljarða króna. Svo tengd var Kista Existu að félagið er kallað Exista-hópurinn í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 20. febrúar síðastliðinn.

Í stjórn félagsins sátu m.a. á sínum tíma þeir Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON, og Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur.

Samkvæmt síðasta uppgjöri Kistu fyrir árið 2011 voru eigendur félagsins fimm. Þeir voru Drómi, þrotabú Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) og Frjálsa fjárfestingarbankans, með 48,4% hlut, Sparisjóðurinn í Keflavík með 31% og Arion banki, sem átti 10%. Þá átti Sparisjóður Svarfdæla 7,1%, Eyraeldi 1,6% og félagið Þrælsfell 1,2% hlut.