Á næstunni munu Sparisjóðirnir fjórir sem eftir eru í landinu ekki lengur geta framkvæmt erlendar millifærslur fyrir viðskiptavini sína. Um er að ræða sparisjóði Austurlands, Höfðahverfinga (Grenivík), Suður-Þingeyinga og Strandamanna.

Tekur þetta gildi eftir 6. desember næstkomandi að ekki verður lengur hægt að millifæra eða greiða til erlendra aðila og svo frá 13. desember verður ekki lengur hægt að taka við greiðslum eða millifæra frá erlendum aðilum.

Þess í stað benda þeir á að gera viðeigandi ráðstafanir hjá öðru fjármálafyrirtæki að því er fram kemur í tilkynningu á vef sparisjóðanna . Er vísað til aukinna krafna um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en í umfjöllun Kjarnans er málið sagt til komið vegna breyttra krafna um evru greiðslur í Evrópu en ekki veru Íslands á svokölluðum gráum lista FATF.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var Ísland sett á gráa lista FATF samtakanna yfir þau lönd sem eru undir eftirliti því hafa ekki uppfyllt skilyrði um aðgerðir til að sporna við peningaþvætti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir þó áhrifin lítil enn sem komið er og má spyrja ýmissa spurninga um aðferðafræði samtakanna.

Íslenskir bankar geta ekki veitt sjóðunum þjónustuna lengur

Kvika banki, sem verið hefur samstarfsaðili sjóðanna, getur ekki lengur veitt þjónustuna vegna krafna frá erlendum samstarfsaðila, og sama á við um aðra íslenska banka.

„Sparisjóðurinn hefur ekki verið beinn aðili að  erlendri greiðslumiðlun og treyst á samstarf innlendra aðila í þeim efnum. Erlendir samstarfsaðilar íslensku bankanna hafa nú útilokað slíkt samstarf vegna aukinna krafna í tengslum við reglur um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.“

Sama gildir um millifærslur milli banka innanlands á erlendum gjaldmiðli þegar þær fari í gegnum erlenda greiðslumiðlun. Sparisjóðirnir vonast til þess að þetta verði tímabundið ástand, og hægt verði að veita þessa þjónustu áður en langt um líður en jafnframt segja þeir að þjónustuskerðingin hafi ekki áhrif á aðra þjónustu sparisjóðanna.

Þannig verði áfram hægt að kaupa erlendan gjaldeyri og stofna gjaldeyrisreikninga, og framkvæma innlendar og erlendar greiðslur með greiðslukortum.