Stefnt að sameiningu Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis. Stjórnir beggja sparisjóða hafa samþykkt að sameina reksturinn og verður áætlun þessa efnis lögð fyrir stofnfjárhafafund í vor. Báðir sparisjóðirnir stóðu höllum fæti í kreppunni og þurfti ríkið að koma þeim til hjálpar með fjárframlögum. Þá stóð um tíma til að Landsbankinn myndi kaupa Sparisjóð Svarfdæla. Í september í fyrra runnu þau áform út í sandinn og lagði Tryggingasjóður sparisjóðanna honum til nýtt stofnfé auk víkjandi láns.

Fram kemur í tilkynningu frá sjóðunum að sparisjóðirnir eigi margt sameiginlegt, þar á meðal sömu skyldum að gegna hvor í sínu samfélagi.

Þá er tekið fram að í báðum sparisjóðum hafi verið unnið að því hörðum höndum undanfarin misseri að treysta rekstur sparisjóðanna til að tryggja tilvist þeirra.

„Við vonum að allir stofnfjáreigendur taki þessum tíðindum vel,“ segir Helga Björk Eiríksdóttir, formaður stjórnar Sparisjóðs Svarfdæla, í tilkynningu. „Sameiningin mun auka útlánagetu og þar með gera okkur kleift að verða öflugri bakhjarl fyrir atvinnulíf og heimili á starfsvæði sameinaðs sjóðs.“

Undir þetta tekur Hólmgeir Karlsson, formaður stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, í tilkynningu. „Það hefur víða komið fram að til að tryggja rekstur sparisjóða í landinu verði að sameina sjóði þannig að stærri og öflugri einingar verði til. Aukin krafa um eiginfjárhlutfall og auknar álögur á sjóðina vegna skattlagningar og eftirlits með starfsemi þeirra eru mjög íþyngjandi fyrir rekstur smærri fjármálafyrirtækja.“

Hagræði í sameiningu

Hólmgeir bendir sömuleiðis á að með sameiningu gæti náðst umtalsverð hagræðing í rekstri, þar á meðal lægri eftirlitskostnaður og lægri kostnaður vegna ytri og innri endurskoðunar og yfirstjórnar.

Gangi áætlanir eftir mun samruninn miðast við 1. janúar síðastliðinn. Heildareignir sameinaðs sjóðs nema um sex milljörðum króna, innlán rúmum þremur milljörðum króna og eigið fé um 500 milljónum króna.

Sameinaður sparisjóður starfar á Dalvík, Þórshöfn, Kópaskeri, Raufarhöfn og í Hrísey. Starfsmenn eru 18 talsins.

Fyrirhugaður samruni er háður samþykki opinberra aðila, bæði Fjármálaeftirlitsins og ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA).