Í skýrslu Rannsóknarefndar um fall sparisjóðanna segir að sjóðirnir hafi veitt „hrakvalshópi“ þjónustu. Sagt er frá þessu í þeim kafla skýrslunnar þar sem fjallað er um framtíð sparisjóðanna.

„Rekstrarlegar forsendur sparisjóðanna hafa breyst í tímans rás en þó má segja að þeir hafi lengi viljað bjóða þjónustu sem byggði á þekkingu á nærsamfélaginu og væri því persónulegri en keppinautanna og fyrir það gætu þeir tekið hærra gjald. Þá má einnig segja að með því að veita fjármálaþjónustu til aðila sem stærri lánastofnanir sinni ekki séu viðskiptavinir sparisjóðanna hrakval þeirra stærri og sparisjóðirnir geti af þeim sökum krafist hærra verðs."

„Þótt því geti fylgt meiri áhætta að veita þessum „hrakvalshópi“ fjármálaþjónustu töldu sparisjóðirnir sig að einhverju leyti vega upp á móti henni með meiri þekkingu á viðskiptavininum. Arðsemismarkmið hafa þó ekki alltaf verið höfð að leiðarljósi fyrir þessu gjaldi. Sparisjóðir hafa ekki átt sömu kosti og bankarnir, að minnsta kosti ekki í seinni tíð, að afla fjármagns á hagstæðum kjörum og hafa þar af leiðandi verðlagt þjónustu sína í samræmi við það. Þá skal bent á að sú hugmynd var lengi við lýði að sparisjóðirnir létu gott af sér leiða til samfélagsins og því gert ráð fyrir að einhver afgangur væri af rekstrinum."

„Til þess að sparisjóðirnir geti starfað áfram á sömu rekstrarlegu forsendum þarf að vera til staðar hópur viðskiptamanna sem vill persónulega þjónustu og er tilbúinn að greiða hærra gjald fyrir sparisjóðsþjónustu. Hefðbundin sparisjóðastarfsemi var lengi vel skilgreind sem inn- og útlánastarfsemi og sem slík lifir hún eingöngu af vaxtamun. Til þess að sparisjóður standi undir sér þurfa hreinar vaxtatekjur að vera hærri en rekstrarkostnaður."

„Athugun rannsóknarnefndarinnar á kjarnarekstri sparisjóðanna sýnir að tap hefur verið á honum samfellt frá árinu 1999 fyrir sparisjóðina í heild. Löggjafinn getur haft áhrif á þann kostnað sem fylgir rekstri sparisjóðs því undir hann falla meðal annars ýmsir skattar og gjöld og kostnaður við eftirlit með fjármálastarfsemi."