Eiginfjárhlutfall tveggja af fjórum eftirlifandi sparisjóðum landsins þarf að hækka á næstu tveimur árum til að standast auknar kröfur Fjármálaeftirlitsins (FME). Eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Suður-Þingeyinga nam 17,88% um áramótin eftir stofnfjáraukningar á síðasta ári og var 0,19% yfir kröfum  FME. Eiginfjárhlutfall sjóðsins þarf að óbreyttu hækka í 18,19% þann 15. maí á næsta ári og í 19,19% í byrjun árs 2020.

„Við erum bara bjartsýn á að ná þessu, eins og við erum búin að ná öllum þessum hækkunum síðan í hruninu. Við vorum með 8% eiginfjárhlutfall í hruninu en erum komin með tæp 18% núna,“ segir Gerður Sigtryggsdóttir, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga. Stofnfé sparisjóðsins var hækkað úr 67 milljónum í 150 milljónir króna á árunum 2016 og 2017 til að mæta auknum kröfum FME.

Stofnfé Sparisjóðs  Höfðhverfinga var aukið um 56 milljónir króna í janúar síð- astliðnum til að standast auknar kröfur  FME. Við það hækkaði  eiginfjárhlutfall  bankans úr 15,8% í 18,25% en krafa  FME  þurfti að vera með 17,25% í byrjun ársins. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins þarf að hækka í 18,75% í upphafi ársins 2020.

Tala fyrir daufum eyrum FME

FME  lagði 2% eiginfjárkröfu á vegna kerfisáhættu í upphafi ársins á sparisjóðina sem hækkar í 3% í upphafi ársins 2020. Hækkunin átti að taka gildi í upphafi næsta árs en hefur verið frestað um ár. „Við höfum reynt að koma þeim skoðunum okkar á framfæri við Fjármálaeftirlitið og fjármálastöðugleikaráð sem leggur línuna fyrir Fjármálaeftirlitið að sparisjóðirnir eru svo lítið brot af heildarfjármálakerfinu,” segir Gerður.  Eignir sparisjóðanna fjögurra samsvarar um 0,5% af heildareignum lánastofnana samkvæmt ársskýrslu  FME. „Þeir geta þar af leiðandi ekki talist  kerfislega mikilvægir. Okkur finnst við ekki njóta sannmælis hvað þetta varðar,“ segir Gerður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .