Sparisjóðirnir á Íslandi og MP banki hf. hafa á liðnum misserum haft með sér farsælt samstarf á sviði upplýsingatæknimála sem miðað hefur að því að ná stærðarhagkvæmni í rekstri og lækka þar með rekstrarkostnað hvers aðila fyrir sig. Á grunni núverandi samstarfs hafa Samband íslenskra sparisjóða (SÍSP) og MP banki hf. ákeðið að hefja viðræður um þróun frekara samstarfs á fleiri sviðum. Samstarf aðila gæti meðal annars náð til fræðslu starfsmanna, reksturs sjóða, greiðslumiðlunar og annarra þátta sem samkeppnislög heimila af því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Að undanförnu hefur orðið mikil samþjöppun á fjármálamarkaði og þar af leiðandi hefur mikilvægi minni fjármálafyrirtækja í að viðhalda fjölbreytileika markaðarins vaxið. Markmið með samstarfinu er að tryggja enn frekar hagkvæman rekstur viðkomandi fjármálafyrirtækja og styrkja þannig samkeppnisstöðu þeirra til hagsbóta fyrir núverandi og verðandi viðskiptavini.

Standa vörð um hagsmuni sparisjóða

Samband íslenskra sparisjóða vinnur í þágu sparisjóðanna á Íslandi og er samstarfsvettvangur þeirra. Tilgangur þess er að standa vörð um hagsmuni sparisjóða og styrkja starfsemi þeirra þannig að þeir verði hæfari til að gegna hlutverki sínu, efla sparnað og stuðla að heilbrigðu efnahagslífi þjóðarinnar. Hlutverk sparisjóða er að stunda sjálfbæra svæðisbundna fjármálastarfsemi á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar, starfsemi sem stendur vörð um og þróar atvinnulíf, mannlíf og velferð svæðisins.

Alhliða fjárfestinga- og viðskiptabanki

MP banki hf. er alhliða fjárfestinga- og viðskiptabanki. Staða MP banka er einstök sem eini bankinn sem er að fullu í eigu lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga og hefur enga aðstoð þegið frá yfirvöldum. Markmið MP banka er að vera leiðandi í fjármálaþjónustu fyrir einstaklinga, fagfjárfesta, fyrirtæki og stofnanir og stuðla ávallt að ánægju og árangri viðskiptavina sinna með traustu viðskiptasambandi og sérsniðnum lausnum. MP banki mun taka virkan þátt í uppbyggingu atvinnulífs og markaða á Íslandi með eflingu virks fjármálamarkaðar.