Sparisjóðurinn í Keflavík tapaði samtals um 7,7 milljörðum króna á Exista og Kistu fjárfestingarfélagi sem fjárfesti í bréfum Exista. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram hvernig Geirmundur Kristinsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri útskýrir hvers vegna hann taldi ekki mikla áhættusamþjöppun í eigninni í í Existu þrátt fyrir að hún hafi verið stórt hlutfall eigin fé sparisjóðsins.

„Ég er ekki sammála að það hafi verið í einni körfu. Hvað var Exista eignin í mörgum félögum? Kaupþing, Skipti, norsku tryggingarfélögin, ég man ekki allt sem Exista átti í. Ef við hefðum t.d. selt og keypt önnur bréf, hvaða félög stóðu upp úr eftir hrunið annað en Össur og Marel? Ég viðurkenni það að maður hefði hagað sér öðruvísi í sambandi við þetta, hefði maður vitað hvað var að gerast en þegar menn voru að fara yfir þetta á þessum tíma og vissu ekki að það var eitthvað hrun framundan þá var þetta metið á þennan hátt, að þarna væri áhættan verulega dreifð með því að eiga áfram í Exista,“ er haft eftir Geirmundi í skýrslunni.

Í framhaldinu rekur hann svo hvernig vandræði Keflavíkur byrjuðu frá árinu 1982 og hvers vegna stjórnendur sparisjóðsins treystu ekki svæðinu fyrir auknum lánveitingum og settu því eignir sjóðsins í annað. Gefum Geirmundi orðið.

„Menn eru að tala um að allt hafi farið fjandans til þarna suður frá þegar herinn fer og það er náttúrulega alrangt, því að þegar nýsköpunin verður í sjávarútvegi 1982 eða eitthvað svoleiðis og Byggðasjóður er settur á fót, þá er Keflavík ekki inni í því. Við erum sett með Reykjavík og höfum ekki aðgang að Byggðasjóði og þ.a.l. var okkur sagt að fara bara upp á völl, það yrði engin nýsköpun í sjávarútvegi á þessu svæði. Það leggst gjörsamlega af og allir fara upp á völl. Þetta er fyrsta áfallið sem við verðum fyrir og vegur að mínu mati þyngst í því sem gerðist þarna suður frá. Síðan þegar var búið að hysja upp um allt saman fer herinn og þá finnur kannski enginn fyrir því fyrst því það er svo mikil þensla alls staðar þar til kreppan kemur og þá finna menn fyrir því að það er engin atvinna og ekkert að gerast þarna. Þannig að við sem vorum þarna í sparisjóðnum vissum nákvæmlega hvað gerðist þegar sjávarútvegurinn var lagður af og við treystum ekkert svæðinu sérstaklega vel fyrir auknum lánveitingum. Þar af leiðandi höfðum við ekkert mikinn áhuga á því að vera að afsetja mikið af eignum til að setja í útlán meðan ekki var meiri fótfesta á svæðinu en var þegar sjávarútvegurinn var farinn.“

Eins og segir í skýrslunni að þá var Exista eignarhaldsfélag utan um mörg félög en eignirnar voru þó aðallega fjármálafyrirtæki. Aðrar stórar fjárfestingar sparisjóðsins voru í fyrirtækjum með sams konar starfsemi, t.d. Sparisjóðabanka Íslands hf., VBS Fjárfestingarbanka hf. og SP-Fjármögnun hf. Áhættudreifing fjárfestinga sparisjóðsins var því takmörkuð.