Sparisjóður Norðfjarðar skilaði hagnaði upp á 51,9 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaður fyrir skatta og gjöld og annað nam 70,2 milljónum króna. Fram kemur í uppgjöri sparisjóðsins að framlag hans til samfélagslegra verkefna nam 3,5 milljónum króna í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri sparisjóðsins sem birt var í tengslum við aðalfund hans í Neskaupsstað í dag, að hreinar vaxtatekjur námu 193,5 milljónum króna og var það 15% aukning á milli ára. Hreinar rekstrartekjur námu 273 milljónum króna og var það 12,7% aukning. Á aðalfundinum var samþykkt tillaga stjórnar um að greiddur verði arður sem nemur 23,6 milljónum króna og verður arðinum varið til endurmats á stofnfé.

Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkissjóðs í sparisjóðnum sem myndaðist við fjárhagslega endurskipulagningu auk þess sem hlutur Byggðastofnunar var færður yfir til Bankasýslunnar og fer hún því með 49,5 % af stofnfé sjóðsins.

Heildareignir sparisjóðsins námu í árslok í fyrra 5.257 milljónum króna og var bókfært eigið fé hans 649,5 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er 19,25%. Fjármálaeftirlitið hefur metið eiginfjárþörf sparisjóðsins út frá svokölluðu SREP ferli og er eiginfjárkrafan 16,9%. Á árinu störfuðu hjá Sparisjóðnum að meðaltali 7,3 starfsmenn í 6,7 stöðugildum og námu laun og launatengd gjöld 67,4 milljónum en beinar launagreiðslur námu samtals 50,6 milljónum. Framlög í afskriftarreikning útlána námu 24 milljónum.