Sparisjóður Ólafsfjarðar var með neikvætt eigið fé upp á 84 milljónir króna í lok síðasta árs en sjóðurinn mun verða að útibúi Arion banka ef samrunaáætlun félaganna gengur eftir. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá þá þarf einungis samþykki hluthafafundar Arion banka og Fjármálaeftirlits til að samruninn gangi eftir. Stofnfjárhafar hafa þegar  samþykkt að bankinn taki yfir sína hluti gegn greiðslu.

Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins, sem er reiknað samkvæmt lögum um fjármálastofnanir, var neikvætt um 5,3% en samkvæmt lögum má hlutfallið ekki vera lægra en 8,0%. Það er því ljóst að ef ekki kemur til þessarar sameiningar við Arion banka þyrfti að auka eigið fé sparisjóðsins verulega. Tap varð á rekstri sjóðsins upp á 89,9 milljónir á árinu 2011, 155 milljóna tap varð á árinu 2010 og 238 milljóna tap á árinu 2009 samkvæmt ársreikningum sjóðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.