Sparisjóður Svarfdæla skilaði 11 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Þetta er nokkur viðsnúningur á milli ára en í hittifyrra tapaði sparisjóðurinn 48 milljónum króna.

Fram kemur í uppgjöri sparisjóðsins að hreinar rekstrartekjur jukust talsvert á milli ára, fóru úr 137 milljónum króna árið 2011 í 197 milljónir.

Eigið fé sparisjóðsins nam 252 milljónum króna um síðustu áramót. Það var lækkað í fyrra um 192 milljónir króna til að jafna neikvæðan varasjóð. Stofnfé sjóðsins var á sama tíma aukið um 10 milljónir króna með aðkomu Tryggingarsjóðs sparisjóða. Eiginfjárhlutfall sjóðsins nam 16,9% í lok síðasta árs.

Heildareignir Sparisjóðs Svarfdæla nam 3.433 milljónum um áramótin og jukust þær um 1,6% á milli ára. Útlán sjóðsins drógust saman og námu 2.301 milljónum króna í lok ársins samanborið við 2.352 milljónir í lok árs 2011.

Fram kemur í tilkynningu frá Sparisjóði Svarfdæla segir að í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins gerði Fjármálaeftirlitið þá kröfu að eiginfjárhlutfall sjóðsins væri ekki lægra en 16%.

Sparisjóðirnir þurfa að vinna saman

Helga Björk Eiríksdóttir, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla, segir í tilkynningu ánægjulegt að rekstur sjóðsins gekk vel í fyrra þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi.

„Rekstrarumhverfi lítilla fjármálafyrirtækja er krefjandi, skattar og álögur hafa aukist á sama tíma og samkeppnin hefur harðnað. Sparisjóðirnir í landinu þurfa því að sameinast og vinna betur saman ef þeir vilja vera raunverulegur valkostur við stærri bankana til framtíðar,“ segir hún.