SPSV
SPSV
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Fyrirtækjaráðgjöf H.F. Verðbréfa hf. hefur til sölumeðferðar, fyrir hönd Bankasýslu ríkisins, 90% stofnfjárhlut ríkisins í Sparisjóði Svarfdæla.

Fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Svarfdæla lauk í desember 2010 og er stofnfé að henni lokinni 424,4 milljónir króna. Í kjölfar endurskipulagningarinnar varð ríkissjóður eigandi stofnfjár að nafnverði 382,0 milljónir króna eða 90% af heildarstofnfé. Á grundvelli laga nr. 88/2009 um Bankasýslu ríkisins fer Bankasýslan með hlut ríkisins. Sparisjóður Svarfdæla hefur að undanförnu starfað á grundvelli undanþágu frá kröfu Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall, en eiginfjárhlutfall sjóðsins skv. ársreikningi fyrir árið 2010 er 10,5%.

Sparisjóður Svarfdæla hefur verið starfræktur í yfir 120 ár. Skrifstofa Sparisjóðs Svarfdæla og aðalafgreiðsla er í ráðhúsinu á Dalvík, en auk þess er rekin afgreiðsla í Hrísey. Alls starfa nú níu starfsmenn hjá sjóðnum. Sparisjóðurinn er eina fjármálafyrirtækið á Dalvík.

Frá og með mánudeginum 5. september næstkomandi geta áhugasamir fjárfestar nálgast samantekt um Sparisjóð Svarfdæla og önnur gögn vegna fyrirhugaðrar sölu hjá H.F. Verðbréfum hf. Frestur til að skila inn óskuldbindandi tilboðum er til kl 12:00 mánudaginn 19. september næstkomandi. Tilboð skulu berast á sérstöku formi sem nálgast má hjá H.F. Verðbréfum hf.

Fjárfestum er frjálst að bjóða í allan eignarhlut seljanda og/eða hluta hans. Seljandi áskilur sér rétt til þess að breyta söluferlinu og/eða stöðva það án fyrirvara. Einnig áskilur seljandi sér rétt til að hafna öllum tilboðum.