Stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja leitar nú allra leiða til að auka eigið fé sjóðsins um 1.200 milljónir króna. Athugun á útlánasafni hans, sem ráðist var í undir lok árs 2014, leiddi í ljós að raunverulegt eiginfjárhlutfall sjóðsins er undir því lágmarki sem Fjármálaeftirlitið hefur sett. Sjóðurinn hefur frest til síðdegis á föstudaginn til að bæta úr stöðunni en að öðrum kosti mun FME grípa til aðgerða og skipa skilanefnd yfir sjóðinn. Fjallað er um málið í Viðskiptamogganum .

Útlánasafn Sparisjóðsins er bókfært í hálfsársuppgjöri hans fyrir árið 2014 á rétt rúma 8 milljarða króna. »Það er fyrst og fremst útlánasafnið frá Selfossi sem ekki hefur reynst jafn gott og áður var talið. Svo virðist vera sem safnið hafi verið ofmetið þegar sjóðurinn gekk í gegnum endurskipulagningu árið 2010,« segir Vilhjálmur Egilsson, varaformaður stjórnar sparisjóðsins.

Vilhjálmur segir stefnt að því að breyta víkjandi lánum að fjárhæð 400 milljónir í eigið fé, 600 milljónir komi með nýju eiginfjárframlagi og 200 milljónir verði sóttar með víkjandi lánum sem teljist með þegar eiginfjárgrunnur sjóðsins er metinn. Þá segist hann geta fullyrt að engin innlán séu í hættu.