Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) hefur óskað eftir viðbótarframlegi frá aðildarfélögum sínum vegna Icesave reikninganna og er viðbótarkostnaður sparisjóðanna einn milljarður króna.

Kostnaður sparisjóðanna vegna Icesave-reikninganna nemur tveimur milljörðum króna.

Þetta kom fram í máli Guðjóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka sparisjóðseigenda, á blaðamannafundi sem haldinn var í morgun.

Þar kom fram að framlag sparisjóðanna í tryggingasjóðnum nam einum milljarði króna en nú hefur verið óskað eftir milljarði í viðbót samkvæmt ákvæðum sjóðsins. Guðjón benti á að þarna væri um mismunun að ræða þar sem sparisjóðirnir eru einu fjármálastofnanirnar á Íslandi sem ekki eru í ríkiseigu.

Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) er sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Hlutverk sjóðsins er að veita innstæðueigendum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd.