Tekin hefur verið ákvörðun um að loka afgreiðslu Sparisjóðs Akraness við Stillholt frá og með næstu mánaðamótum.

Viðskiptavinum útibúsins var sent bréf í gær þess efnis, þar sem þeir eru boðnir velkomnir til áframhaldandi viðskipta hjá Sparisjóði Mýrasýslu.

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns.

„Sparisjóður Akraness var óarðbær eining í okkar rekstri og er lokun útibúsins liður í hagræðingu í rekstri SPM. Á Akranesi keppir sparisjóðurinn við rótgróin útibú frá öllum íslensku bönkunum og hefur það ekki náð nauðsynlegri fótfestu til að réttlæta áframhaldandi rekstur,” segir Bernhard Þór Bernhardsson sparisjóðsstjóri SPM í samtali við Skessuhorn.

Á vef Skessuhorns kemur fram að útibúið á Akranesi var opnað í ársbyrjun 2006. Þar eru nú þrír starfsmenn og hafa þeir allir fengið uppsagnarbréf í kjölfar ákvörðunar stjórnar SPM.

„Bankaafgreiðslu útibúsins verður lokað um næstu mánaðamót en það á eftir að koma í ljós hvað verður um afgreiðslu TM sem sjóðurinn hefur annast,” segir Bernhard jafnframt.