Fjármálaeftirlitið (FME) skilaði í gær úttekt sinni á fjárhagslegum styrk stærstu sparisjóða landsins og breska ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman mun skila úttekt sinni á möguleikum í endurskipulagningu sparisjóðakerfisins í dag.

Þetta staðfestir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og segir að nú séu komin inn þau undirstöðugögn sem beðið hafi verið eftir til að geta tekið ákvörðun um endurskipulagninguna.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að hún muni liggja fyrir eftir helgi. Steingrímur segir að sinn vilji standi enn til þess að sparisjóðakerfið lifi áfram í einhverri mynd.

„Það er unnið samkvæmt því að sparisjóðakerfið sé hluti af framtíðarlandslaginu. Það eru mjög stór svæði á landinu þar sem sparisjóðir eru einu bankastofnanirnar sem almenningur hefur aðgang að og því er ekki um annað að ræða en að sú þjónusta verði tryggð í einni eða annarri mynd. Það er þó mjög líklegt að þeir taki einhverjum skipulagslegum breytingum. Að sjóðirnir starfi saman svæðisbundið.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .