Að sögn Ragnar Z. Guðjónssonar, sparisjóðsstjóra Byrs, er ekki sanngjarnt að líta svo á að bankinn hefði átt um fjórðung af eigið fé sínu í útlánum hjá Baugi Group eins og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins í vikunni og lesa má út úr kröfuskránni eins og hún liggur nú fyrir. Horfa beri til þess á hvaða tíma lánin voru veitt og hver eiginfjárstaðan sparisjóðsins var á þeim tíma. Eigið fé Byrs var um 16,2 milljarðar króna um síðustu áramót og miðað við tæplega fjögurra milljarða króna kröfu í búið jafngilti það 23% af eigið fé.

Ragnar benti einnig á að í tilvikum sem þessum þar sem fyrir liggi að útlán geti tapast sé framkvæmd varúðarniðurfærsla. Það hafi verið gert í ársuppgjöri sparisjóðsins fyrir árið 2008. Á þeim tíma hafi verið ljóst í hvað stefndi með mörg fyrirtæki og þess vegna hafi verið teknir til hliðar fjármunir vegna hugsanlegra útlánatapa.

Væntingar um endurheimtur ekki miklar

-      En hvers má vænta þegar kemur að endurheimtum?

,,Ég get ekkert sagt til um það hver endanleg niðurstaða verður en væntingar okkar eru ekki miklar“

Byr er nú í fjárhagslegri endurskipulagningu og hefur ekki birt hálfsársuppgjör sitt. Að sögn Ragnars verður uppgjör ekki birt fyrr en þeirri vinnu er lokið.

Að sögn Ragnars gengur endurskipulagningin ágætlega og þá einnig samningaviðræður við kröfuhafa. Búið sé að ná samkomulagi við þá og nú sé unnið að skjalagerð í kringum það og hnýta lausa enda. ,,Hinn vængurinn á þessu eru samningar við ríkið vegna stofnfjárframlags sem sparisjóðurinn sótti um í mars. Það er verið að ganga frá ákveðnum samningum við fjármálaráðuneytið þar um,“ sagði Ragnar.

Sameiningaviðræður bíða niðurstöðu um stofnfjárframlag

Byr sótti um 10,6 milljarða króna framlag frá ríkinu í samræmi við ákvæði neyðarlaganna og var það hámark þess sem hægt var að sækja um. Ragnar sagðist vonast til þess að þetta myndi skýrst að verulegu leyti um miðjan október.

-      En er verið að vinna í einhverjum sameiningum?

,,Nei, við erum ekkert að vinna í því. Við þurfum að klára endurfjármögnun á sjóðnum svo hann standi styrkum fótum með trausta eiginfjárstöðu. Þegar því er lokið geta menn farið að hugsa eitthvað annað og meðal annars um hagræðingu á fjármálamarkaði.“