Stjórn Sparisjóðs Svarfdælinga á Dalvík hefur sótt um 20% framlag úr ríkissjóði til styrkingar á eigin fé sjóðsins samkvæmt heimild neyðarlaga. Miðað við eiginfjárstöðu sjóðsins í árslok 2007 jafngildir þetta 467 milljónum króna. Sú tala miðast við að sjóðurinn fái fullt framlag.

Að sögn Jónasar Péturssonar sparisjóðsstjóra er það mat stjórnar sjóðsins að miðað við stöðu hans í dag myndi slíkt framlag hjálpa mikið. Ársreikningur síðasta árs liggur ekki fyrir en til að geta sótt um framlag þarf sjóðurinn að hafa handbær drög að uppgjöri auk rekstraráætlunar næstu tveggja ára. Sú áætlun á að sýna fram á að um sé að ræða rekstrarhæfa einingu. "Nú vonum við að þetta fái skjóta og góða úrlausn í meðförum fjármálaráðuneytisins," sagði Jónas. Við afgreiðslu málsins þarf að liggja fyrir umsögn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Sparisjóður Svarfdælinga átti 3% hlut í Sparisjóðsbankanum sem nú er afskrifaður að fullu. Einnig átti sjóðurinn eignarhlut í Kistu, eignarhaldsfélagi sparisjóðanna í Exista. Gengistap vegna þeirrar stöðu var sá einstaki þáttur sem hafði mest áhrif á niðurstöðu síðasta árs auk taps af eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum.

Sparisjóðurinn hefur staðið fyrir byggingu menningarhúss á Dalvík. Til þess er ætlunin að verja 300 milljónum króna og er gert ráð fyrir að húsið verði tilbúið í ágúst næstkomandi. Það er núna tilbúið að utan og vinna við það innanhúss er hafin. Sjóðurinn samþykkti að verja 200 milljónum króna til hússins í mars 2007 vegna góðs rekstrar árið 2006. Á síðasta  ári var ákveðið að hækka framlagið upp í 300 milljónir króna.

Jónas tók við sem sparisjóðsstjóri af Friðrik Friðrikssyni í febrúar síðastliðnum.