Samkvæmt uppgjöri Sparisjóðs Vélstjóra fyrir annan ársfjórðung nemur hagnaður á fyrri hluta ársins 627,6 milljónum króna samanborið við 541,1 milljónir á sama tímbili árið á undan. Hagnaður eftir skatta nam 570,1 milljónum samanborið við 434 milljónir fyrstu 6 mánuði ársins 2005. Arðsemi eigin fjár er 18% á ársgrundvelli.

Vaxtatekjur sparisjóðsins jukust um 75,2% frá sama tímabili árið á undan og námu 2,2 milljörðum.
Vaxtagjöld námu 1,7 milljaðri og jukust um 131,1% miðað við sama tímabil síðasta árs.
Hreinar vaxtatekjur dragast saman um 9,9% og námu 455,3 milljónum samanborið við 505,3 milljónir fyrri hluta árs 2005.

Hreinar rekstrartekjur jukust um 167,6 milljónir króna eða 15,7% og námu fyrir tímabilið 1,2 milljarði.
Rekstrargjöld námu 441milljónum fyrstu sex mánuði ársins og jukust um 10% frá sama tímabili árið 2005. Launakostnaður hækkaði um 8,3% en almennur rekstrarkostnaður hefur aukist um 11,7%.
Kostnaðarhlutfall sparisjóðsins fyrstu 6 mánuði ársins 2005 var 35,7% á móti 37,8% fyrir saman tímabil árið 2005.

Útlán til viðskiptavina námu 30,2 milljörðum og jukust um 25,2% frá árslokum 2005. Innlán námu 23.,5 milljörðum og jukust um 18,6% frá árslokum 2005.

Eigið fé í lok júní 2006 nam 6.587,0 milljónum króna og hefur vaxið um 498,3 milljónir frá áramótum eða 8,2%. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum er 15,7%.

Vaxtamunur tímabilsins er 2,2% samanborið við 2,7% árið 2005 og 2,3% fyrir sama tímabil 2005. Heildarfjármagn í júní lok 2006 nam 44.562,3 milljónum og hefur aukist um 18,8% frá áramótum.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að rekstur Sparisjóðs vélstjóra gekk vel fyrstu 6 mánuði ársins 2005 og er hagnaðurinn umfram áætlanir. Sparisjóðurinn býr að sterkri lausafjárstöðu og góð afkoma liðinna ára hefur leitt til sterkrar eiginfjárstöðu. Sparisjóður vélstjóra er því í vel stakk búinn að takast á við ný verkefni og hefur alla burði til að auka lánastarfsemi sína á samkeppnishæfum kjörum. Stjórnendur sparisjóðsins gera ráð fyrir að afkoma fyrir árið 2006 í heild verði góð í samræmi við afkomuna fyrstu 6 mánuði ársins.