Hagnaður er af reglulegri starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja, en heildarniðurstaða rekstrar er tap upp á 29 milljónir króna eftir skatta.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá Sparisjóð Vestmanneyja.

Eignir Sparisjóðsins í óskráðum félögum hafa þá, samkvæmt tilkynningunni verið færðar niður um 209 milljónir króna, markaðsverðbréf eru færð á skráðu gengi í kauphöll, virðisrýrnun útlána er reiknuð 40 milljónir króna til gjalda og tekjuskattur til tekna er 66 milljónir króna,m.a. vegna breytinga á skattalögum.

Niðurstaða efnahagsreiknings er 13.825 milljónir króna og hefur hún hækkað um 13,5% frá upphafi árs.

Útlán eru 8.357 milljónir króna og hafa hækkað um tæplega 8%, innlán eru 8.519 milljónir króna og hafa hækkað um tæplega 21%.

Í tilkynningunni kemur fram að á tímabilinu veiktist íslenska krónan verulega og verðlagshækkanir hafa verið miklar.

Eigið fé Sparisjóðsins er 1.770 milljónir króna og hefur lækkað um rúmlega 4% frá upphafi árs vegna taps tímabilsins og arðgreiðslna sem námu 50 milljónir króna

Þá segir í tilkynningunni að afkoma fyrstu sex mánaða ársins verður að teljast vel ásættanleg miðað við erfiðar ytri aðstæður í starfsemi fjármálafyrirtækja. Niðurstaða grunnrekstrar sé góð og ekkert bendir til að seinni sex mánuðir ársins verði með öðrum hætti hvað varðar grunnreksturinn.

Þá kemur fram að Sparisjóðurinn hefur verið lánveitandi á millibankamarkaði enda fjármagnaður að mestu með innlánum og eigin fé.

„Ljóst er að ytri aðstæður eru fjármálafyrirtækjum mótdrægar en fjárhagsleg staða Sparisjóðsins er sterk og því er hann vel í stakk búinn til að takast á við framhaldið. Sparisjóðurinn er stöðugt að leita leiða til að efla starfsemina á starfssvæði sínu, sem spannar frá Hveragerði í vestri að Breiðdalsvík í austri, með höfuðstöðvar í Vestmannaeyjum,“ segir í tilkynningunni.