Í dag voru kynntar niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar en þetta er í níunda sinn sem ánægja íslenskra viðskiptavina fjölda fyrirtækja er mæld. Úrtakið var um 28.500 manns úr þjóðskrá á aldrinum 16 til 79 ára.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir hjá Capacent Gallup kynnti niðurstöðurnar og sagði m.a. að mikil fylgni væri milli ánægju og tryggðar viðskiptavina og að tengsl tryggðar og afkomu fyrirtækis væru mjög sterk. Því væri til mikils að vinna að hafa viðskiptavini ánægða.

Í flokki banka og sparisjóða á einstaklingsmarkaði, var Sparisjóðurinn í fyrsta sæti með 78,1 stig. Sparisjóðurinn hefur því endurheimt fyrsta sætið sem hann hefur vermt í átta ár af þeim níu sem mælingar hafa verið gerðar, en árið 2006 var SPRON í fyrsta sæti.

Í flokki banka og sparisjóða á fyrirtækjamarkaði, sem nú voru mældir í fyrsta skipti var Landsbankinn í fyrsta sæti með 71,6 stig, en mun minni munur er á einkunnum banka á fyrirtækjamarkaði en einstaklingsmarkaði.

Í flokki tryggingafélaga var Tryggingamiðstöðin í fyrsta sæti með 69,0 stig en lækkaði um 2,9 stig á milli ára og hefur því heldur dregið úr muninum á tryggingafélögunum. Tryggingamiðstöðin hefur alltaf verið í fyrsta sæti í þessum flokki ef frá er talið árið 2004 þegar VÍS var í fyrsta sæti.

Í flokki farsímafyrirtækja var Síminn í fyrsta sæti með 65,3 stig.

Í flokki internetveitna sem nú voru mældar í annað skipti var Vodafone í fyrsta sæti með 65,7 stig og velti þar með Hive úr sessi.

Í flokki gosdrykkjaframleiðenda var Ölgerðin Egill Skallagrímsson í fyrsta sæti með 76,6 stig og hækkar þar með um 4,4 stig á milli ára.

Í flokki rafveitufyrirtækja, varð Hitaveita Suðurnesja í fyrsta sæti sjötta árið í röð með 68,2 stig en töluvert dró úr ánægju viðskiptavina rafveitna á milli ára.

Í flokki olíufélaga varð Olís í fyrsta sæti með 65,7.

Í flokki byggingavöruverslana varð BYKO í fyrsta sæti með 65,2.

Íslenska ánægjuvogin er félag, sem Samtök iðnaðarins, Stjórnvísi og Capacent Gallup standa að hvað varðar þátttöku í Evrópsku ánægjuvoginni. Markmið verkefnisins er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina en einnig nokkrum öðrum þáttum, sem hafa áhrif á hana, s.s. ímynd, mat á gæðum, og tryggð viðskiptavina. Mælingin er talin mjög mikilvæg þar sem rannsóknir hafa leitt í ljós að því ánægðari sem viðskiptavinir fyrirtækis eru því betri afkomu getur það gert sér vonir um.